25. ágúst. 2004 03:01
Nýir nemendagarðar á Hvanneyri
Sjálfseignarstofnuninni Nemendagörðum Búvísindadeildar á Hvanneyri var sl. föstudag afhent lyklavöld að nýjustu nemendagörðunum á Hvanneyri og er þar um að ræða hús við Skólaflöt 12. Húsin eru einingahús frá Loftorku í Borgarnesi en byggingaverktakinn er P.J. byggingar ehf á Hvanneyri. Brúttóflatarmál hússins er um 1.150 fermetrar á tveimur hæðum auk riss. Afhentar voru tvær hæðir núna með alls 12 íbúðum. Tvær risíbúðir verða afhentar um áramót og eru þær fjögurra herbergja hvor.
Framkvæmdir við húsið hófust í janúarbyrjun á þessu ári og hafa gengið mjög vel að sögn Péturs Jónssonar húsasmíðameistara. Er þetta þriðja húsið sem byggt er við Skólaflöt á Hvanneyri eftir svipaðri teikningu og af sömu aðilum. Það fyrsta var afhent árið 2002 og annar ári síðar. Alls eru því í þessum þremur húsum 51 íbúð frá einstaklingíbúðum upp í fjögurra herbergja.
Greinilegt er að sérlega hefur verið vandað er til verks við byggingu og frágang nemendagarðanna enda sá úttektaraðili Íbúðalánasjóðs sérstaka ástæðu til að geta þess eftir að vandlegri úttekt á húsinu lauk.