27. ágúst. 2004 01:15
Bændur tapa stórfé
Skiptastjóri Ferskra afurða á Hvammstanga, Sveinn Andri Sveinsson hrl., hefur staðfest að ekkert muni koma upp í almennar kröfur í þrotabúi Ferskra afurða á Hvammstanga. Það litla af eignum félagsins, sem ekki eru veðsettar, rennur í greiðslu forgangskrafna. Margir bændur á Vesturlandi voru meðal innleggjenda hjá Ferskum afurðum og er í nokkrum tilfellum um að ræða tjón sem telur mörg hundruð þúsund krónur og jafnvel á aðra milljón í einstaka tilfellum. Samkvæmt þessum upplýsingum er bændum því óhætt að afskrifa að fullu allar kröfur vegna nautgripa- og hrossakjöts sem þeir áttu inni hjá fyrirtækinu. Ríkisskattsstjóra hefur verið sent erindi vegna meðferðar á kröfum vegna sauðfjárinnleggs. Vonir standa til að svar fáist einhvern næstu daga um hvort, og þá hve mikið, megi afskrifa kröfur vegna sauðfjárinnleggs. Samkvæmt áætlun Félagssviðs Bændasamtaka Íslands bendir flest til að a.m.k. 74% af þeim kröfum hafi tapast.