01. september. 2004 01:03
Skáldsins minnst á 100 ára afmæli
Í dag 1. september hefði Guðmundur Böðvarsson, skáld og bóndi á Kirkjubóli í Hvítársíðu orðið 100 ára, hefði hann lifað. Þessara tímamóta er minnst á ýmsan hátt heima í héraði um næstkomandi helgi. Sjá ítarlega umfjöllun og viðtöl við þau Böðvar Guðmundsson og Silju Aðalsteinsdóttur í Skessuhorni sem kemur út í kvöld.
Hörpuútgáfan á Akranesi hefur af tilefni afmælisins gefið út bókina Ljóðöld sem er úrval af ljóðum skáldsins. Á laugardaginn hefst í Reykholti málþing um Guðmund Böðvarsson. Bergur Þorgeirsson stjórnar umræðum, Silja Aðalsteinsdóttir og Magnús Sigurðsson flytja erindi og Silja, Böðvar Guðmundsson, sonur skáldsins, og Þorleifur Hauksson lesa úr verkum Guðmundar. Minningarstofa Guðmundar Böðvarssonar og Snorrastofa standa sameiginlega að málþinginu sem allir eru velkomnir á.