08. september. 2004 10:34
Allt að tuttuguföld kartöfluuppskera
Kartöfluupptaka stendur nú sem hæst hjá bændum á Hraunsmúla í Staðarsveit. Hjónin Helgi Sigurmonsson og Þóra Kristín Magnúsdóttir búa á Hraunsmúla og hafa þau um allnokkurt skeið ræktað kartöflur til sölu og eru nú með þrjá og hálfan hektara undir. Auk kartöfluræktunarinnar gera þau út litla trillu frá Arnarstapa.
Þóra Kristín sagði í samtali við Skessuhorn að kartöfluuppskeran í haust væri með allra besta móti. “Í sumum tilfellum erum við að fá allt að tuttugu faldri uppskeru, en algengt þetta tólf og uppí tuttuguföld, en það er með besta móti hjá okkur”. Uppskeran er þó eitthvað misjöfn eftir tegundum en þau rækta jöfnum höndum; gullauga, rauðar íslenskar og bintjé. Þau felldu kartöflugrösin um miðjan ágúst, en það er jafnan gert tímanlega áður en tekið er upp til að kartöfluhýðið styrkist. Aðspurð segjast þau vera einu aðilarnir á Snæfellsnesi sem rækta kartöflur til sölu. “Við seljum alla okkar uppskeru í skóla, hótel og verslanir hér á Vesturlandi. Mikið fer t.d. í Kaupfélagið í Borgarnesi”. Þau segja verð á kartöflum vera þokkalegt um þessar mundir og gera ráð fyrir að fá um 120 krónur fyrir kílóið nú í haust.
Sjá myndir frá Hraunsmúla í Skessuhorni sem kemur út í kvöld.