02. október. 2004 07:01
Göngum til góðs í dag - og tökum vel á móti söfnunarfólki
Landssöfnun Rauða krossins, göngum til góðs verður í dag, laugardaginn 2. október 2004. Skessuhorn hvetur Vestlendinga til að taka virkan þátt í þörfu átaki, en þeim fjármunum sem safnast, verður varið til hjálparstarfs meðal barna sem búa við ógnir stríðsátaka. Málefnið er brýnt því fleiri en helmingur þeirra sem verða fyrir barðinu á átökum eru börn. Að sögn Sameinuðu þjóðanna létust tvær milljónir barna af völdum stríðs á síðasta áratug, sex milljónir misstu heimili sín og tólf milljón börn særðust eða hlutu varanlega fötlun. Að minnsta kosti 300 þúsund börn hafa verið tekin í heri og skæruliðahreyfingar á um 30 átakasvæðum víðs vegar um heiminn, mörg gegn vilja sínum.