11. ágúst. 2004 09:20
Kvennareið á fermingaraldri
Hin árlega kvennareið Dalakvenna og gesta þeirra fór fram sl. laugardag í blíðskaparveðri. Þátttaka var að venju góð, en um 120 konur voru í hópnum. Þetta er í fjórtánda skipti sem konur í Dölum safnast saman í þeim tilgangi að ríða þægilega dagleið, eiga skemmtilega stund saman og láta karlpeninginn þjóna sér. Að þessu sinni voru gestgjafarnir Saurbæingar og voru konur þar í forystuhlutverki en bændur þeirra sáu um veitingar og viðeigandi veigar fyrir konurnar. Slíkir menn eru jafnan nefndir Lautinantar með skírskotun í áningarstaðina.
Lagt var af stað frá Bessatungu í Saurbæ, inn Brekkudal og niður aftur og meðfram Hvolsá og í Tjarnarlund þar sem áð var. Þar grilluðu Saurbæjarbændur og þjónuðu konunum, gítarinn var dreginn fram og sungið svo undir kvað í sveitinni. Þegar kvöldaði færði hópurinn sig í gömlu Jónsbúð á Skriðulandi, eða Dórubúð eins og hún er nefnd nú en þar var dansað fram á nótt.
Að þessu sinni voru frumkvöðlar að kvennareið heiðraðar sérstaklega en það voru þær Inga Þorkelsdóttir og María Eyþórsdóttir sem áttu frumkvæði að kvennareiðinni ásamt Ástu Emilsdóttur, en Ásta var fjarverandi að þessu sinni. Þær stöllur fengu sérstakar gjafir frá gestgjöfunum í tilefni þess að kvennareið er nú komin á fermingaraldur.