12. ágúst. 2004 09:21
www.fsn.is opnar
Síðastliðinn mánudag opnaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra nýjan vef Fjölbrautaskóla Snæfellinga á slóðinni www.fsn.is. Við opnun vefjarins var stuðst við nýjustu tækni þar sem ráðherra opnaði vefinn frá skrifstofu sinni í Reykjavík en í anddyri skólans í Grundarfirði fylgdust með opnuninni þau Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari, ásamt starfsmönnum, skólanefnd og fulltrúa menntamálaráðuneytisins. Á FSn-vefnum eru birt drög að skólanámskrá skólans og hvers kyns upplýsingar um skólastarfið. Vefurinn er unninn sem samstarfsverkefni Hugsmiðjunnar og Hex og er hann hannaður með það fyrir augum að vera bæði aðgengilegur og notendavænn. Í samtali við Skessuhorn sagði Guðbjörg að framkvæmdir við skólann væru nánast á áætlun en iðnaðarmenn vinna baki brotnu við framkvæmdir. Einnig er starfsfólk og kennarar farnir að undirbúa skólastarfið en ráðgert era ð fyrsti skóladagur verði 30. ágúst. Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá hafa yfir 100 nemendur staðfest skólavist á þessum fyrsta skólavetri nýja skólans.