27. október. 2004 03:14
Nýr vefur Skessuhorns opnar á föstudaginn
Undanfarið hefur verið unnið að uppfærslu á vef Skessuhorns og er stefnt að því að hann opni nk. föstudag. Þessi gamli vefur er tákn síns tíma, þótti framúrstefnulegur fyrir 6 árum þegar hann opnaði, en tækniframfarir síðan gera hann úreltan í dag. Vefur Skessuhorns gegnir þýðingarmiklu hlutverki m.a. vegna þess að lesendur skrá sjálfir á hann allar þær smáauglýsingar sem síðar birtast í Skessuhorni, þeim að kostnaðarlausu. Einnig geta félagasamtök og aðrir aðilar sem standa fyrir hverskyns samkomum á Vesturlandi skráð atburði sína á vefinn og birtast þær upplýsingar "á döfinni" í næsta prentaða tölublaði sem kemur út fyrir viðkomandi viðburð. Meðal nýjunga á vefnum má geta sjálfvirkra birtinga frétta frá þeim sveitarfélögum sem hafa vefi unna í Nepal vefumsjónarkerfinu, en það munu nú vera 7-8 stærstu sveitarfélögin á Vesturlandi. Einnig birtast á vefnum fyrirsagnir 8 nýjustu fréttir þeirra fyrirtækja og stofnana sem hafa vefi hýsta hjá Nepal. Þetta samstarf Nepal ehf. og Skessuhorns þýðir að fréttir sem einstök félög, fyrirtæki eða stofnanir birta, koma einnig fram á vef Skessuhorns og því má búast við stóraukinni umferð á þessa vefi alla - séu menn duglegir að skrá fréttir! Smám saman vonumst við þannig til að á Skessuhornsvefinn færist meira líf en verið hefur og hann gagnist daglega sem skilvirk upplýsingaveita samfélagsins hér á Vesturlandi.
Það liggur fyrir að umferð um Skessuhornsvefinn er mikil, þó við höfum ekki mælingar sem segja nákvæmlega hversu mikil þessi umferð er. Samhliða opnun vefjar í nýju kerfi hefst sjálfvirk vefmæling hjá Modernus og þá verður hægt að sýna með ótvíræðum hætti heimsóknartíðni á vefinn. Þeir sem vilja auglýsa á nýjum Skessuhornsvef geta snúið sér til framkvæmdastjóra í síma 894-8998.