06. október. 2004 11:17
Lagt til að sveitarfélögum á Vesturlandi fækki úr 17 í 5
Í nýlegum tillögum nefndar félagsmálaráðherra um sameiningar sveitarfélaga er m.a. lagt til að sveitarfélögum á Vesturlandi fækki úr 17 í 5 á næstu árum. Í því felst m.a. að fjórum hreppum sunnan Skarðsheiðar verði gefinn kostur á að kjósa um sameiningu 20. nóvember nk., Akranes verði áfram eitt sveitarfélag, Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Hvítársíða og Kolbeinsstaðarhreppur sameinist í eitt sveitarfélag, sveitarfélög á Snæfellsnesi sameinist í eitt og loks er lagt til að Dalabyggð, Saurbæjarhreppur og Reykhólahreppur sameinist í eitt sveitarfélag. Nú gefst sveitarstjórnum á svæðinu tveggja mánaða frestur til að skila inn athugasemdum og breytingartillögum við framkomnar tillögur nefndarinnar áður en endanlegar tillögur hennar verða lagðar fram. Íbúum þessara sveitarfélaga gefst síðan kostur á að kjósa um tillögurnar næsta vor, nánar tiltekið laugardaginn 23. apríl 2005. Í Skessuhorni sem kemur út í kvöld er tilllögum nefndarinnar lýst ítarlega auk þess sem nokkrir sveitarstjórar á Vesturlandi tjá hug sinn til tillagna nefndar félagsmálaráðherra.