07. október. 2004 01:01
Óviðunandi fjarskiptasamband í Dölum
Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar, sem haldinn var 21. september sl. var samþykkt ályktun vegna símamála í sveitarfélaginu. Tillagan var svohljóðandi: “Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á Símann að bæta úr því ófremdarástandi sem ríkir í sveitarfélaginu vegna lélegs fjarskiptasambands. GSM símasamband er víða í Dalabyggð til mikilla óþæginda bæði fyrir heimamenn og gesti. Mikil aukning ferðamanna hefur verið á undanförnum arum. Sem dæmi má nefna að gestir á Eiríksstöðum í Haukadal hafa undanfarin ár verið um 10.000. Þar er ekkert GSM símasamband og einungis á nokkrum stöðum hægt að notast við NMT síma. Ekki batnar ástandið þegar gagnaflutningur um netið er skoðaður. Víða í sveitum héraðsins er sambandið það slæmt að varla er hægt að notast við netið. Í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, Búðardal, er ekki einu sinni komin ADSL tenging. Á Laugum í Sælingsdal er rekið hótel. Þar næst hvorki GSM símasamband né NMT og nettenging óviðunandi. Með vísan til framanritaðs er það krafa sveitarstjórnar að úr þessu verði bætt þannig að íbúar sveitarfélagsins og gestir þess geti notast við fyrsta flokks þjónustu hvað fjarskiptasamskipti varðar.”