28. október. 2004 09:34
Allt það góða og Luther frá Steinsnar
Í dag koma út tveir nýir hljómdiskar út hjá útgáfufyrirtæki Steinars Berg í Fossatúni; Steinsnar. Það eru Allt það góða með Helga Péturssyni, sem m.a. er þekktur sem meðlimur Ríó tríósins og Luther með Birni Thoroddsen.
Allt það góða er önnur sólóplata Helga Péturssonar og sækir hann þar í sjóð laga sem hafa heillað hann í gegnum tíðina. Lög sem hægt er að kalla sígræn dægurlög en hafa ekki verið gefin út með íslenskum texta áður. Meðal laganna eru Þú ert mitt sólskin (You are my sunshine), Alltaf elskan mín (Always On My Mind) og Síðasti vals (Tenessee “altz) Það er hirðskáld Ríó Tríósins Jónas Friðrik Guðnason á Raufarhöfn sem samdi íslensku textana.
Á plötunni Luther sækir Björn Thoroddsen efnivið sinn í tónlist sem samin var af upphafsmanni hinnar lútersku kirkju, sjálfum Martin Luther. Luther var mjög liðtækt tónskáld og samdi fyrst og fremst sálma. Nokkra þeirra er að finna í íslensku sálmabókinni en aðra var erfiðara að finna. Björn endursemur hinsvegar mörg laganna en byggir á grunni Martins Luthers.