02. ágúst. 2013 02:01
Gamla kirkjan í Reykholti var öll máluð að utan í blíðunni í síðustu viku, auk þess sem þak kirkjunnar var loks málað í fyrsta sinn frá endurgerð kirkjunnar sem lauk árið 2006. Það er nú orðið rautt að lit en var áður hvítt. Yfirumsjón með verkinu hafði Guðmundur Lúther Hafsteinsson, arkitekt og fagstjóri Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands, en það var Málningarþjónustan Litalausnir sem annaðist verkið undir stjórn Þorkels Inga Þorkelssonar, málarameistara og eiganda fyrirtækisins. Bygging gömlu kirkjunnar hófst árið 1886 og var hún tekin í notkun árið 1887. Form kirkjunnar er undir áhrifum frá Dómkirkjunni í Reykjavík og er hún heilsteypt verk og sögð mikilvægt dæmi um þróun íslenskrar byggingarlistar á síðari hluta nítjándu aldar, að því er fram kemur á vef Þjóðminjasafns Íslands, en stofnunin hefur haft kirkjuna í sinni vörslu frá 2001. Það var Ingólfur Guðmundsson forsmiður sem hannaði hana á sínum tíma.