02. ágúst. 2013 03:01
Undafarið ár hefur Markaðsstofa Vesturlands leitast við að eyða þeim orðrómi að allt sé lokað á Vesturlandi á jaðar- og vetrartíma með því að draga saman þau fyrirtæki sem eru með opið á ársgrundvelli og fá aðila í ferðaþjónustu til þess að vinna betur saman að samþættingu. Vaxtarsamningur Vesturlands styrkti verkefnið sem bar yfirskriftina Vetrarátak á Vesturlandi. Afsprengi þess verkefnis er svokallað Circle´s verkefni sem byggir á fjórum til fimm ferðahringjum víðsvegar um landshlutann en einnig byggði verkefnið á því að finna nafn á þessar hringleiðir til mótvægis við Gullna hringinn.
Það sem vantaði þegar að þessari vinnu var lokið var fjármagn til markaðssetningar á þessum hringleiðum en auk þess mun fara töluverð vinna í að fá ferðaskrifstofur, ferðabækur og þá aðila sem almennt eru í því að markaðssetja og selja ferðir til Íslands til þess að nota sama nafnið á þessar hringleiðir, en þær hafa verið farnar af ferðaskipuleggjendum og ferðamönnum á eigin vegum um áraraðir. Nokkrir hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu sóttu svo um fjármuni í Sóknaráætlun Vesturlands, í samstarfi við Markaðsstofuna, með það að markmiði að setja af stað markaðsátak á Vesturlandi.
Annars vegar er um að ræða Breiðafjarðarsvæðið og hins vegar Akraborgarsvæðið sem samanstendur af Akranesi, Hvalfirði og Borgarfjarðarsvæðinu. Hvort verkefni um sig fékk styrk að upphæð 4.5 milljónir og Breiðafjarðar markaðsátakið verður í samstarfi við hagsmunaaðila á Suðurfjörðum Vestfjarða. Sú vinna sem búið er að vinna í Circle´s verkefninu mun nýtast vel í þeirri markaðssetningu.
Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar þar sem m.a. er rætt við Rósu Björk Halldórsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Vesturlands og Ernu Hauksdóttur framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.