07. ágúst. 2013 01:34
Þriðja árið í röð er nýliðun í arnarstofninum undir meðallagi, að sögn Róberts Stefánssonar forstöðumanns Náttúrustofu Vesturlands. Varp misfórst hjá um helmingi arnarpara sem byrjuðu varp í vor, 23 pör komu 31 unga á legg. Það er eilítið skárri árangur en fyrir ári þegar 21 par kom 28 ungum upp þannig að þeir voru orðnir fleygir í ágúst. Þá eins og nú voru tveir þriðju arnarstofnsins sem byrjuðu varp, en um 70 arnarpör eru í landinu. Í hitteðfyrra þegar vorveðrátta var með versta móti komust 29 ungar á legg í 19 hreiðrum.
Erninum hefur verið að fjölga hægt og bítandi frá árinu 1970 þegar stofninn var búinn að vera í lægð í fimmtíu ár. Mest fór hann niður undir 20 pör og var þá kominn í verulega útrýmingarhættu. Róbert segir að nærtækasta skýringin á þessum slaka árangri í arnarvarpinu í vor sem síðustu ár séu kuldar á viðkvæmasta tímaskeiði varptímans í maí. Í vor hafi verið mjög blautt auk þess sem lágt hitastig var einkennandi. Að sögn Róberts er unginn mjög berskjaldaður þegar hann er að koma úr egginu og þurfi þá mjög á skýli foreldra sinna að halda. „Við vitum svo sem ekki til fullnustu skýringarnar en okkur finnst kulda og bleytutíð líklegasta skýringin,“ segir Róbert.