08. ágúst. 2013 09:16
Ekki sóttu Víkingar frá Ólafsvík gull í greipar Keflavíkinga, þegar liðin mættust í botnsslag Pepsídeildarinnar suður með sjó í gærkvöldi. Víkingar voru öllu betra liðið í fyrri hálfleik og náðu þá að skapa sér nokkur marktækifæri. Markalaust var engu að síður í hálfleik, en það voru síðan heimamenn í Keflavík sem reyndust hafa meiri sigurvilja í síðari hálfleiknum. Frans Elvarsson skoraði fyrir þá á 60. mínútu og Magnús Sverrir Þorsteinsson innsiglaði sigur Keflvíkinga í 2:0 sigri á 84. mínútu. Víkingar eru nú í 10. sæti deildarinnar með 10 stig, jafnmörg og Keflavík en tveimur mörkum í plús. Í næstu umferð leika Víkingar heima gegn Þórsurum, sem hafa verið að sogast niður í fallbaráttuna að undanförnu, enda aðeins með þremur stigum meira en liðin í 10. og 11. sæti. Fylkir er einnig kominn í 13 stig og í 8. sæti eftir góðan sigur á Val. Leik ÍA og Breiðabliks sem vera átti í gær var frestað vegna evrópuleiks Blikanna í kvöld, en ÍA er neðst í deildinni með aðeins 7 stig.