13. ágúst. 2013 08:01
Lið Skallagríms vann stórsigur í Borgarnesi á föstudaginn þegar liðið fékk sameiginlegt lið Kormáks/Hvatar í heimsókn á Skallagrímsvöll í 12. umferð B-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu. Úrslit leiksins urðu 5:0 fyrir Borgnesinga. Mörk heimamanna skoruðu þeir Sölvi G. Gylfason, sem skoraði tvö, Helgi Pétur Magnússon, Sveinbjörn Guðlaugsson og Skúli Pálsson. Með sigrinum endurheimtu Borgnesingar 5. sæti riðilsins og hafa þeir nú 15 stig.
Einungis tvær umferðir eru eftir af Íslandsmótinu hjá Skallagrímsmönnum en næsti leikur liðsins er á fimmtudaginn gegn liði KB í Reykjavík.