13. ágúst. 2013 03:02
Átta umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum í liðinni viku. Í flestum þeirra slapp fólk án teljandi meiðsla, enda fólk í öryggisbeltunum að sögn lögreglu. Einn árekstur varð í Norðurárdalnum við framúrakstur. Þrír bílar voru í röð og sá fremsti ók á um 60-70 km hraða. Tveir bílar voru á eftir honum og annar með fellihýsi í eftirdragi. Fór þeim að leiðast þófið og á beinum vegarkafla ákvað ökumaður bílsins með eftirvagninn sem aftastur var að fara framúr. Þegar hann var að komast upp að hliðinni á þeim næsta, datt þeim ökumanni einnig í hug að fara framúr lestarstjóranum en tók ekki eftir bílnum sem var kominn upp að hliðinni á honum og úr varð árekstur. Bíllinn með tjaldvagninn endaði á hvolfi út í móa en hinn gat haldið ferð sinni áfram eftir að hafa gefið lögreglu skýrslu. Lestarstjórinn varð trúlega ekki var við neitt af því sem að gekk á fyrir aftan hann og ók því hinn rólegasti áfram sína leið í „góðum gír“ og var eflaust langfyrstur á áfangastað.