14. ágúst. 2013 10:01
Sígilt orðatiltæki í íslensku máli um þá sem eiga sér mörg viðfangefni er; „að hafa margt á prjónunum.“ Það á ákaflega vel við Hrönn Ríkharðsdóttur skólastjóra Grundaskóla á Akranesi og fyrrverandi bæjarfulltrúa. Auk þess að fást við margt bæði í starfi og leik, er Hrönn mikil hannyrðamanneskja. Á öllum fundum er hún með prjónana, m.a. þegar hún situr stjórnarfundi hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún er fulltrúi Akraneskaupstaðar. Stjórnarmenn OR hafa verið að gantast með að Hrönn ætti að prjóna merki fyrirtækisins í allar flíkurnar sem hún prjónar á fundum.
„Ég prjóna allar algengustu ullarflíkur, svo sem peysur, sokka og vettlinga, bæði á fjölskylduna og til gjafa. Mér finnst óskaplega skemmtilegt að geta gefið það sem ég prjóna. Persónulegar gjafir eru alltaf skemmtilegar,“ sagði Hrönn þegar blaðamaður Skessuhorns hitti hana að máli í Grundaskóla á dögunum. Það var rétt í þann mund sem starfsfólk skólans var að mæta til vinnu að nýju eftir sumarfrí og undirbúa nýtt skólaár.
Sjá nánar viðtal við Hrönn Ríkharðsdóttur skólastjóra Grundaskóla og fyrrverandi bæjarfulltrúa á Akranesi í Skessuhorni sem kom út í dag.