20. ágúst. 2013 11:18
Bæjarráð Stykkishólms samþykkti á fundi sínum sl. fimmtudag að skora á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra að sjá til þess að þau störf sem tengdust rannsóknarnefnd samgönguslysa á landsbyggðinni verði þar áfram. Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur í mörg ár verið með starfsstöð í Stykkishólmi í húsnæði Flugmálastofnunar með tvo starfsmenn. Ráðuneyti hefur sagt upp leigu á húsnæðinu og stefnir í að rannsóknarnefnd sjóslysa ljúki starfsemi í Stykkishólmi í októbermánuði næstkomandi. Flytjist þá í sameiginlegt húsnæði samgöngunefndar sem nú er unnið að standsetningu á í Reykjavík. Lárus Ástmar Hannesson nýendurkjörinn formaður bæjarráðs Stykkishólms hafði forgöngu um að málið var tekið upp á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Lárus sagði í samtali við Skessuhorn að þegar samþykkt var í þinginu í vor að slysarannsóknanefndirnar þrjár: flug,- sjó- og umferðar, yrðu sameinaðar í samgöngunefnd með bækistöð í Reykjavík, hefði þess verið farið á leit við Ögmund Jónasson þáverandi innanríkisráðherra að rannsóknarnefnd sjóslysa yrði áfram með starfsstöð í Stykkishólmi.
Lárus Ástmar sagði að Ögmundur hafi verið ófáanlegur til þess. Nú hafi bæjarráði þótt rétt að láta reyna á það hvort nýr innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, væri tilbúin að breyta því sem Ögmundur vildi ekki breyta, ekki síst í ljósi þess að tiltekinn þingmaður Sjálfstæðisflokks hefði talið fullvíst að flokkurinn myndi breyta þessari ákvörðun kæmist hann í ríkisstjórn.