20. ágúst. 2013 09:55
Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hófst í dag, 20. ágúst, og stendur til 15. mars. Varpið hófst fremur seint í ár og því var upphafi veiðinna seinkað á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs til 1. september. Algengt er að veiðimenn bíði með gæsaveiði þar til í september ekki síst í ljósi þess að þá er einnig heimilt að hefja veiðar á þeim andategundum sem veiddar eru. Fjöldi veiðimanna fer hinsvegar til veiða fyrstu dagana, sérstaklega þeir sem veiða heiðagæsir, en þeim hefur fjölgað mjög síðustu árin, eins og reyndar ýmsum andategundum, en veiðitölur endurspegla gott ástand á gæsastofnum. Á vef Umhverfisstofnunar segir að veiðimenn séu minntir á að óheimilt er að skjóta ófleyga fugla og hafa ber í huga að búast má við ófleygum gæsaungum á fyrstu dögum veiðitímabilsins. Veiðimenn eru ennfremur minntir á alfriðun blesgæsar en hún hefur verið friðuð síðan 2003.