21. ágúst. 2013 09:10
Landhelgisgæslunni barst beiðni um aðstoð þyrlu klukkan 20 í gærkvöldi, eftir að maður hafði slasast við Dönustaðagrjótin í Laxá í Dölum. Svo vel vildi til að TF-GNA var þá að koma til baka úr eftirlitsflugi um Vestfirði og Húnaflóa og eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að fara á vettvang. Hinn slasaði var ekki í lífshættu en talið nauðsynlegt að hann yrði fluttur á sjúkrahús. Lent var við slysstað einungis korteri eftir að beiðni barst og var maðurinn fluttur um borð í þyrluna og lent við Landspítalann fyrir klukkan 21 þar sem hinn slasaði komst undir læknishendur.