23. ágúst. 2013 08:35
Með auglýsingu í Morgunblaðinu í gær er Hótel Hellissandur boðið til sölu. Hótelbyggingin er er nýleg og reisuleg, byggð 2001. Það er nú með 20 herbergjum en við hönnun þess var hafður opinn sá möguleiki að byggja mætti hæð ofan á núverandi hæðir og fjölga herbergjum um 16-20. Að Hótel Hellissandi stendur um tugur hluthafa. Byggðastofnun á stærstan hlut, tæpan fjórðung, en aðrir hluthafar eiga minna, en í hópi þeirra eru t.d. Júlíus Jónsson, Skúli Alexandersson, Magnús Sigurðsson auk fiskvinnslufyrirtækjanna Hraðfrystihúss Hellissands, KG fiskverkunar, Sjávariðjunnar í Rifi og fleiri. Að sögn eins hluthafans sem Skessuhorn ræddi við er hugmyndin með auglýsingunni að kanna hvort áhugasamir kaupendur finnist að byggingum og rekstri og eru menn reiðubúnir að selja hlutabréfin ef viðunandi tilboð fæst.