28. ágúst. 2013 04:59
Fresta þurfti Skessuhornsmótinu í knattspyrnu snemma í sumar vegna vallarframkvæmda á Skallagrímsvelli í Borgarnesi, en mótið var endurvakið í fyrra eftir nokkurra ára hlé. Nú hefur stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms ákveðið að blása til mótsins og það verði á Skallagrímsvelli laugardaginn 7. september nk., en mótið er haldið í samvinnu deildarinnar og Vesturlandsblaðsins Skessuhorns. Sem fyrr er fyrirkomulag mótsins, keppni sjö manna liða og leiktíminn 2x10 mínútur. Um blönduð lið af báðum kynjum getur verið að ræða og m.a. höfðað til fyrirtækja og vina- og kunningjahópa að senda lið til mótsins. Aldurslágmark er 16 ár.
Skráning á mótið ber að senda á neffangið knattspyrna@skallagrimur.is og er síðustu forvöð til þess 5. september nk. Þátttökugjald er 15.000 krónur á lið en í boði verða vegleg verðlaun, veitingar, sundferð og heitir pottar, auk heiðursins „Vesturlandsmeistarar 2013“. Búist er við harðri keppni og í tilkynningu segir að sjúkrabifreið verði á staðnum.