30. ágúst. 2013 02:34
Nemendagarðar á Hvanneyri, sem er sjálfseignarstofnun um nemendaíbúðir á staðnum, hafa gert samning um leigu á hluta af húsnæði garðanna yfir sumartímann. Leigutaki er Kristján Karl Kristjánsson sem rekur Ferstikluskálann í Hvalfirði. Hótelið verður með 24 herbergi og verður opnað síðari hluta maí næsta vor og verður opið fram í miðjan ágúst. Kristján Karl er byrjaður að skipuleggja reksturinn og leggur áherslu á gott samstarf við heimaaðila, enda er ljóst að reksturinn mun skapa nokkur störf á Hvanneyri yfir sumartímann. Kristján Karl hefur ákveðið að boða til fundar með áhugasömum heimamönnum í haust. Hótelið hefur ekki fengið nafn, en Kristján Karl bendir á netfangið verkamenn@simnet.is ef fólk vill leggja fram tillögur hvað það snertir.