31. ágúst. 2013 06:01
Átaksverkefnið Kraftmeiri skógur hefst formlega í dag, laugardag kl. 11.30, í Hótel Örk í Hveragerði. Af því tilefni mun Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari og skógarbóndi í Svíþjóð afhenda Sigurði Inga Jóhannssyni landbúnaðarráðherra fyrsta eintakið af nýrri íslenskri skógarbók „Skógarauðlindin – ræktun, umhirða og nýting“. Kraftmeiri skógur er fræðsluverkefni sem leggur áherslu á að fjalla um skógrækt sem fjölskyldufyrirtæki og nauðsyn þess að hlúa vel að til að ná árangri. Þessu nýja verkefni er ætlað að ná til sem flestra skógareigenda á Íslandi með almennri fræðslu, persónulegum heimsóknum, útgáfu á kennsluefni, virkri heimasíðu og endurmenntun. Grunnhugmynd af Kraftmeiri skógur kemur frá verkefninu Kraftsamling skog í Svíþjóð. Þar hefur verkefnið verið í gangi í þrjú ár og gengið vel. Lars Lagerbäck var einn af þátttakendum í verkefninu þar í landi sem skógareigandi.
-fréttatilkynning