08. október. 2013 02:42
Hafin er vinna við gerð skólastefnu Grundarfjarðarbæjar. Í dag, þriðjudaginn 8. október, er vegna þess haldinn umræðu- og hugarflugsfundur með foreldrum barna í leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Síðar verður fundur með starfsfólki skólanna og einnig mun öllum íbúum Grundarfjarðar gefast kostur á að leggja fram sínar áherslur. Gert er ráð fyrir að vinnu við gerð skólastefnu ljúki í vor. Stýrihópur hefur verið stofnaður um verkefnið og hefur honum verið falið að taka að sér yfirumsjón með vinnunni. Í hópnum eru Aðalsteinn Þorvaldsson sóknarprestur, Anna Bergsdóttir skólastjóri grunnskólans, Ásthildur E. Erlingsdóttir formaður skólanefndar, sem jafnframt er formaður hópsins, Matthildur S. Guðmundsdóttir leikskólastjóri og Sigríður G. Arnardóttir fulltrúi í skólanefnd. Áður hafði Gunnar Kristjánsson verið ráðinn verkefnisstjóri.
Í tilkynningu vegna gerðar nýrrar skólastefnu segir að í stuttu máli sé skólastefna leiðarvísir um skólastarf í sveitarfélaginu. Í skólastefnu séu dregnar fram þær áherslur í skólamálum sem íbúar koma sér saman um. „Skólastefna er grundvöllur fyrir ákvarðanatöku og skýrir hvaða leiðir á að fara til að ná áætluðum árangri. Jafnframt er leitast við að skýra þau grunngildi sem aðilar skólasamfélagsins vilja að skólarnir standi fyrir og einkenni störf þeirra. Skólastefna markar framtíðarsýn í skólamálum og skiptir allt samfélagið máli. Skólarnir eru mikilvægustu stofnanir samfélagsins og jafnframt fer stærstur hluti fjármuna sveitarfélaga til reksturs skóla. Nauðsynlegt er að skólarnir séu í stöðugri þróun í takt við breytingar í samfélaginu. Það er því áríðandi að vera með skýra stefnu um hvernig eigi að forngangsraða verkefnum,“ segir m.a. í greinargerð um skólastefnuna.