08. október. 2013 06:06
Í dag, þriðjdaginn 8. október eru rétt 70 ár síðan fyrsta bíósýningin var haldin í Bíóhöllinni á Akranesi. Sama dag afhentu hjónin Haraldur Böðvarsson og Ingunn Sveinsdóttur húsið til Akraneskaupstaðar að gjöf. „Stórfengleg gjöf til stuðnings menningar- og mannúðarmála“ skrifaði Morgunblaðið 10. október 1943 af þessu tilefni. Í tilefni af afmælisdeginum ætla núverandi rekstraraðilar hússins að bjóða fólki í bíó, á myndina The Family (Malavita) í kvöld klukkan 20.00. Aldurstakmark er 14 ár.
Árið 1943 voru íbúar Akraneskaupstaðar 2026 talsins og fyrsta kvikmyndin sem sýnd var mun hafa verið „Refsinornin“ sem ekki var álitin nein úrvals kvikmynd. Árið eftir, 1944, komu 56.425 sýningargestir í Bíóhöllina á 185 sýningar og því 305 manns að meðaltali á hverja sýningu. Húsið rúmaði 377 í sæti. Árið 1963 urðu flestir sýningargestir á einu ári en þá urðu þeir 43.491 á almennum sýningum og á barnasýningum urðu þeir 17.050 eða samtals 60.541.