11. október. 2013 02:01
Íbúar í Ólafsvík standa nú fyrir fjársöfnun svo sinna megi nauðsynlegu viðhaldi á kirkjunni í bænum. Gripið er til þessa úrræðis þar sem sjóðir kirkjunnar eru tómir. Sævar Þórjónsson málarameistari var sóknarefndarmaður til 30 ára og í mörg ár formaður nefndarinnar. „Ég málaði kirkjuna upphaflega eftir að hún var reist, þá nýbúinn að læra iðnina í Borgarnesi. Nú eru 22 ár síðan kirkjan var máluð síðast að innan. Það er ekki til króna í sjóðum hennar til viðhalds. Þess vegna höfum við auglýst eftir framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Það eru rakaskemmdir við glugga í turninum. Síðan er kirkjan orðin sótug af öllum kertunum sem menn hafa brennt í henni gegnum árin. Það er orðið aðkallandi að fara í að mála hana.“
Sævar segir að söfnunin gangi ágætlega. „Nú bíðum við eftir smiðum sem ætla að þétta gluggana í turninum. Mikil ótíð og rigningar hafa tafið fyrir okkur. Síðan er ætlunin að mála kirkjuna í janúar og febrúar á næsta ári,“ segir Sævar.
Söfnunarreikningurinn er númer 0194-05-401286 með kennitölu 500269-4999.