10. október. 2013 10:20
Grútarblautur örn sem fannst rétt fyrir utan Grundarfjörð á þriðjudag drapst í nótt. Skarphéðinn Ólafsson sá fuglinn sem virtist slæptur og aðframkominn. Hann fékk liðsinni bróður síns til að handsama örninn. Í gær var örninn síðan sóttur af Róberti Arnari Stefánssyni frá Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi. Fuglinn var þrifinn og honum veitt önnur aðhlynning. Síðan átti að fara með hann í dag í Húsdýragarðinn í Reykjavík þar sem vonir stóðu til að hann myndi braggast. Fuglinum varð hins vegar ekki bjargað. Örninn drapst í nótt.
„Fuglinn var orðinn aðframkominn. Þetta var kvenfugl, sennilega yfir tíu ára gamall. Þessi assa var ekki merkt en við hófum merkingar á öllum ungum árið 2003 þannig að ómerktu fuglarnir hafa klakist út fyrir það ár. Við vitum ekki hvað varð fuglinum að fjörtjóni. Hún var vissulega grútarblaut en við sáum líka smá blæðingu við gogginn. Kannski hefur hún flogið á eitthvað. Hræið verður nú krufið og gegnumlýst,“ segir Róbert Arnar Stefánsson í samtali við Skessuhorn.