14. október. 2013 08:01
Fyrsti Flandrasprettur vetrarins verður hlaupinn fimmtudagskvöldið 17. október nk. kl. 20:00. Flandrasprettirnir eru röð keppnishlaupa á vegum hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi og eru sprettirnir jafnan þreyttir þriðja fimmtudagskvöld í hverjum mánuði frá október og fram í mars. Hlaupnir eru 5 km með tímatöku, með upphaf og endi við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi. Um er að ræða stigakeppni og að loknu marshlaupinu verða afhent verðlaun til þeirra sem safnað hafa flestum stigum samanlagt yfir veturinn í hverjum aldursflokki um sig. Keppt er í fjórum aldursflokkum karla og kvenna.
Eins og fram kemur í kynningu á Flandrasprettunum á hlaupasíðunni hlaup.is eru Flandrasprettirnir, þrátt fyrir nafngiftina, ekki endilega spretthlaup í ítrustu merkingu þess orðs. Hlaupið er fyrir alla, hvort sem þeir eru byrjendur eða heimsmeistarar. Þátttakendum er frjálst að keppa við hverja sem er á leiðinni, en oftast er maður sjálfur mikilvægasti keppinauturinn. Flandrasprettirnir fara nú fram í annað sinn, en hlauparöðinni var upphaflega hleypt af stokkunum haustið 2012 þegar hlaupahópurinn Flandri var nýstofnaður. Síðasta vetur tóku samtals 68 manns þátt í sprettunum. Þar voru heimamenn í meirihluta, en rúmlega þriðjungur þátttakenda kom úr öðrum héruðum, einkum frá höfuðborgarsvæðinu og af Ströndum. Mest var þátttakan í febrúarhlaupinu, en þá mættu 33 hlauparar til leiks.
Flandrasprettirnir hefjast sem fyrr segir við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi. Skráning hefst í anddyrinu hálftíma fyrr og kostar 500 krónur á mann. Þátttakendur fylla út þátttökuseðla sem þeir hlaupa síðan með og skila þegar þeir koma í mark. Nauðsynlegt er að skila seðlinum til að fá hlaupatímann skráðan.