15. október. 2013 10:31
Knattspyrnumaðurinn ungi úr Snæfellsbæ, Brynjar Gauti Guðjónsson, er á leiðinni til Sogndal í Noregi, þar sem hann æfir í næstu viku og verður til skoðunar hjá félaginu. Brynjar Gauti stefnir á atvinnumennsku og hugsanlegt er að hann kíki á aðstæður hjá fleiri félögum í Noregi en þar eru örfáar umferðir eftir af deildarkeppninni. Sogndal er sem stendur í 12. sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Brynjar Gauti hefur leikið með ÍBV síðustu tvö árin og átti mjög gott tímabil með Eyjamönnum síðasta sumar. Hann er einnig miðvörður í U-21 landsliðinu sem hefur staðið sig mjög vel í undankeppni HM, á þar að baki þrjá sigurleiki og aðeins naumt tap gegn gríðarsterku liði Frakka. „Ég ætla að skoða mig aðeins um og tel rétta skrefið á ferlinum að fara út núna. Ef maður ætlar að halda sér í þessu sterka U21-landsliði verður maður að taka næsta skref,“ sagði Brynjar Gauti í samtali við fotbolta.net í gærkvöldi.