21. október. 2013 11:55
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 17. október sl. var rætt um smalamennsku í heimalöndum í sveitarfélaginu. Gerð var eftirfarandi bókun: „Rætt um smölun á Skarðshamarslandi. Samþykkt að heimila sveitarstjóra að láta smala landið á kostnað fjáreigenda.“ Bændur sem lásu þessa bókun á vef Borgarbyggðar urðu klumsa og fullyrtu að ef rétt væri bókað væri um tímamótaákvörðun byggðarráðs að ræða sem aukin heldur stæðist ekki lög. Málið var hins vegar snarlega upplýst þegar Skessuhorn leitaði til Páls S Brynjarssonar sveitarstjóra, sem sagði: „Þetta voru mistök við bókun. Þarna átti að standa landeigenda en ekki fjáreiganda,“ sagði Páll og baðst afsökunar á þessum mistökum sem formlega verða leiðrétt í fundargerð sveitarstjórnar. Það hefur því ekkert breyst í þeim efnum að heimalönd verða áfram smöluð á kostnað landeigenda í Borgarbyggð hér eftir sem hingað til.