23. október. 2013 08:48
Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru nú á fjallvegum um vestanvert og norðanvert landið og unnið að hreinsun, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Hálka eða hálkublettir eru á fjallvegum á Vesturlandi en snjóþekja á Fróðárheiði, Vatnaleið og Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra er einnig hálka eða snjóþekja á nokkrum leiðum á láglendi. Vegir eru að mestu auðir á Suðurlandi en þó eru hálkublettir á Sandskeiði. Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir en snjóþekja á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði. Hálka er á Þverárfjalli en snjóþekja á Vatnsskarði og á hringvegi austan Varmahlíðar en annars eru vegir yfirleitt greiðfærir á Norðvesturlandi. Á Norðausturlandi er snjóþekja og éljagangur á Öxnadalsheiði og einnig snjóþekja í Eyjafirði og á vegum allt austur á Mývatnsöræfi. Þæfingsfærð er í Bárðadal og unnið að hreinsun. Greiðfært er með Norðausturströndinni. Á Austurlandi er hálka á Möðrudalsöræfum, hálkublettir á Breiðdalsheiði og Öxi en flestar aðrar leiðir eru greiðfærar.
Loks er minnt á að vegna vinnu í Hvalfjarðargöngum næstu nætur eru vegfarendur beðnir um að virða merkingar og aka varlega um vinnusvæðið.