25. október. 2013 09:23
Skallagrímur náði ekki sömu gæðunum í leik sinn og gegn Ísfirðingum á dögunum, þegar þeir töpuðu fyrir kanalausum Stjörnumönnum í Garðabænum í gær. Þetta var fjórði leikur Skallagrímsmanna í úrvalsdeildinni í körfubolta í vetur og þeir eru aðeins með einn sigur úr þeim leikjum. Lokatölur voru 84:68 fyrir Stjörnuna í gærkveldi. Skallagrímsmenn áttu á brattann að sækja allan leikinn og voru 13 stigum undir í leikhléinu 44:31. Mestu munaði hjá þeim að bandaríski leikmaðurinn Mychal Grenn átti ekki mikið framlag í leiknum, skoraði einungis 7 stig, skilaði sex stoðsendingum og tók 10 fráköst. Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur með 16, Egill Egilsson skoraði 11, Orri Jónsson 9, Davíð Guðmundsson 9, Davíð Ásgeirsson 7, Grétar Ingi Erlendsson 5, tók 11 fráköst og þrjú varin skot og Sigurður Þórarinsson skoraði 4 stig. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse langatkvæðamestur með 32 stig og 10 stoðsendingar. Skallagrímur á ekki leik í úrvalsdeildinni næst fyrr en 8. nóvember í Njarðvík, en í næstu viku verður leikið í 32ja liða úrslitum Powerade bikarsins.