25. október. 2013 09:51
Snæfell byrjar ekki vel í úrvalsdeildinni þennan veturinn og er nú neðarlega á töflunni eftir aðeins einn sigur í þremur leikjum. Þeirra annað tap var gegn baráttuglöðum KR ingum í Stykkishólmi í gærkvöldi. KR-ingum var spáð titlinum af spekingum fyrir tímabilið og vissulega lítur lið þeirra vel út í byrjun móts. Lokatölur í leiknum í gærkveldi voru 99:84. KR-ingar eru kanalausir um þessar mundir en Pavel Ermolinskij var vel ígildi sterks útlendings í leiknum og var langbesti maður vallarins.
Jafnt var í fyrsta leikhluta en gestirnir tóku síðan völdin og voru 12 stigum yfir í hálfleik 47:35. Álíka munur hélst síðan á liðunum út leikinn og Snæfellingar voru aldrei líklegir til að snúa leiknum sér í vil, svo góð tök höfðu gestirnir. Hjá Snæfelli var Kristján Pétur Andrésson stigahæstur með 20, Vance Cooksey kom næstur með 18, 6 fráköst og 8 stoðsendingar, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9, Stefán Karel Torfason 9 og 9 fráköst, Sigurður Á Þorvaldsson 8, Jón Ólafur Jónsson 6 og 8 fráköst, Finnur Atli Magnússon 5, Hafþór Ingi Gunnarsson 5 og Sveinn Arnar Davíðsson 4. Hjá KR var Helgi Már Magnússon stigahæstur með 25, Darri Hilmarsson 22 og Pavel Ermolinskij 20, 20 fráköst og 13 stoðsendingar.
Í næstu umferð mætir Snæfell Haukum í Hafnarfirði og fer leikurinn fram nk. miðvikudag. Haukarnir hafa byrjað vel og eru með firnasterkt lið.