01. desember. 2004 01:22
Dægurlagakeppni Borgarfjarðar fór fram í Logalandi sl. laugardag og var keppnin liður í Gleðifundi UMF Reykdæla. Í keppninni er keppt um besta frumsamda lagið sem lagahöfundar sendu inn ásamt texta. Átta lög sem dómnefnd valdi áfram til keppni voru síðan flutt og gestir á samkomunni kusu þau bestu.
Í þriðja sæti varð lag Bjarna Guðmundssonar, Vorsöngur, við texta Trausta Eyjólfssonar en það var Þórunn Pétursdóttir sem flutti. Í öðru sæti varð lag Þóru Geirlaugar Bjartmarsdóttur sem hún söng sjálf en lagið heitir Handan við hornið. Faðir hennar, Bjartmar Hannesson, samdi textann. Sigurlag keppninnar, Augnayndi, átti hinsvegar Sigfús Jónsson, 16 ára tónlistaráhugamaður frá Sturlu Reykjum í Reykholtsdal og átti hann bæði lag og texta. Það var Orri Sveinn Jónsson sem söng lagið en Sigfús spilaði sjálfur undir á gítar með hljómsveitinni Stuðbandalaginu. Sigurlaun voru hljóðverstímar í Hljóðsmiðjunni, stúdíói Péturs Hjaltested. Það var Sparisjóður Mýrasýslu sem styrkti keppnina.