29. október. 2013 12:50
Systurnar Sigfríður, Ásdís, Sigrún, Steinunn og Páley Geirdal og fjölskyldur þeirra gáfu Innra-Hólms kirkju nýverið 500.000 króna gjöf til minningar um foreldra sína Braga St. Geirdal og Helgu Pálsdóttur. Þau bjuggu á Kirkjubóli í Innri Akraneshrepp á árunum 1937 – 1957. Helga Pálsdóttir var frá Innra-Hólmi og Kirkjuból er rétt við kirkjuna.
Fjölskyldan notaði kirkjuna ávallt mikið. Bragi og Helga voru gefin saman þar og sungu um árabil í kirkjukórnum. Auk þeirra systra eiga afkomendur Sjafnar Geirdal hlut að gjöfinni: Hún var ein systranna en lést á síðasta ári. Það var Ásdís B. Geirdal sem búsett er að Hvanneyri sem afhenti Ragnheiði Guðmundsdóttur formanni sóknarnefndar gjafabréf fyrir hönd þeirra systra að lokinni messu.
Skessuhorn fjallaði nýlega um ástand kirkjunnar sem er orðið bágborið vegna skorts á viðhaldi.