31. október. 2013 03:50
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í morgun voru málefni og framtíðarhorfur háskólannna í Borgarfirði rædd en í fjálagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi skólanna. Byggðarráð samþykkti eftirfarandi bókun: „Byggðarráð Borgarbyggðar skorar á menntamálaráðherra og ríkisstjórn Íslands að endurmeta afstöðu sína til háskólaumhverfisins í Borgarbyggð sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi. Háskólarnir eru í lykilhlutverki hvað varðar atvinnulíf á Vesturlandi og tækifæri landshlutans til frekari sóknar.“
Þá segir að byggðarráð hafi á undanförnum dögum átt fundi með fjárlaganefnd, yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands, yfirstjórn Háskólans á Bifröst og mennta- og menningarmálaráðherra, sem kom í heimsókn í Borgarbyggð miðvikudaginn 23. október sl.
„Byggðarráð hefur óskað eftir fundi með þingmönnum Norðvesturkjördæmis um þessa grafalvarlegu afstöðu sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu varðandi bæði Bifröst og Hvanneyri. Byggðarráð hvetur yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands og stjórn Háskólans á Bifröst til að standa vörð um sjálfstæði skólanna.“ Samþykkt var á fundi byggðarráðs að boða sem fyrst til íbúafundar um málefni háskólanna og var sveitarstjóra falið að undirbúa fundinn.