05. desember. 2013 09:01
Eitt er það fiskiskip sem vakið hefur athygli í vikulegu yfirliti Skessuhorns þar sem tilgreindar eru landanir og aflahæstu skip og bátar á Vesturlandi. Það er línutrillan Tryggvi Eðvarðs SH 2 sem gerð er út frá Rifi. Rótfiskast á bátinn og er það nánast fastur liður í aflayfirlitinu. Áhöfnin er skipuð ungum dugnaðarmönnum sem sækja sjóinn af festu og afla þjóðarbúinu mikilla verðmæta. Aflatölur Tryggva Eðvarðs tala sínu máli þegar þær eru skoðaðar. Á síðasta fiskveiðiári 2012/2013 veiddi áhöfnin alls 1.083 tonn af bolfiski, þar af 635 tonn af þorski. Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru af þessu fiskveiðiári hafa skipverjar á Tryggva dregið 236 tonn úr sjó. Þar af eru rétt tæp 100 tonn af þorski. Þessu til viðbótar veiddu þeir á Tryggva Eðvarðs alls 97 tonn af makríl á síðasta ári.
Sjá nánar viðtal við Arnar Laxdal Jóhannsson skipstjóra í Skessuhorni vikunnar.