05. desember. 2013 09:40
Heitt vatn komst á Akranes nú undir morgun eftir bilun sem varð um kvölmatarleytið í gær á stofnæðinni frá Deildartunguhver. „Vegna þess hve kalt er í veðri hefur þó ekki tekist að koma á fullum þrýstingi og þess vegna biður starfsfólk Orkuveitunnar íbúa að fara sparlega með heitt að minnsta kosti þar til á morgun,“ segir í tilkynningu. Tvær bilanir urðu á Deildartunguæðinni í gær og við þá síðari varð heitavatnslaust á Akranesi. Báðar urðu þær við Skorholt, miðja vegu milli Akraness og Borgarness. Sú síðari fannst fljótlega og gekk viðgerð vel. „Við viðgerð á Deildartunguæðinni, sem er lengsta hitaveitulögn á landinu eða um 70 km. löng, þarf að tæma lögnina á talsvert löngum kafla. Þess vegna var tímafrekt að hleypa vatni á að nýju. Það var ekki fyrr en nú undir morgun að vatn var komið á allt Akranes, en þó ekki fullur þrýstingur ennþá, sem áður segir. Þess vegna biður starfsfólk Orkuveitunnar Skagamenn að fara eins sparlega með heita vatnið og kostur er, að minnsta kosti fram á morgundaginn. Orkuveitan biðst afsökunar á óþægindunum.“