06. desember. 2013 06:01
Nýr veitingasalur var tekinn í notkun á Landnámssetri Íslands í Borgarnesi á sunnudaginn. Nýi salurinn er hluti af viðbyggingu á tveimur hæðum sem hefur verið í byggingu frá því í mars á þessu ári. Hvor hæð er 50 fermetrar að flatarmáli, en veitingasalurinn er á efri hæð og er gengið inn í hann frá Hvítasal setursins. Salurinn er ágætlega hannaður og þjóna Suðurnesklettar skemmtilega hlutverki útveggjar í salnum. Neðri hæð viðbyggingarinnar var einnig tekin í notkun á sunnudaginn en þar er að finna eldhús staðarins, sem stækkar um helming frá því sem var, geymslur, þvottahús, skrifstofurými og vinnuaðstaða starfsfólks.
Að sögn Kjartans Ragnarssonar forstöðumanns Landnámssetursins mun viðbyggingin breyta aðstöðunni á staðnum verulega, ekki síst fyrir starfsfólk. Vegna smæðar eldhússins hefur hingað til einungis verið hægt að taka á móti takmörkuðum fjölda gesta í mat og hefur því Arinstofa í risi verið minna notuð á álagstímum. Nú breytist þetta og getur Landnámssetrið með sínum þremur veislusölum tekið á móti allt að 70 manns í einu í mat, þar af 30 í nýja salnum. Nýi salurinn er einnig sniðinn fyrir fundi og einkasamkomur þar sem hægt er að loka honum frá Hvítasalnum.