08. desember. 2013 07:01
Einstaklingar á Reykhólum hafa reynt að skapa sér atvinnu og tekjur úr klóþangi sem Þörungaverksmiðjan vinnur stærstan hluta sinnar framleiðslu úr. Guðjón D Gunnarsson er einn þeirra en hann vinnur úr þanginu blómaáburðinn Glæði. Guðjón setti framleiðsluna á markað um aldamótin síðustu og segir að salan hafi vaxið talsvert síðustu tvö til þrjú árin. Fyrstu árin hafi hann verið að selja um tonn á ári. Í ár verður salan um sex tonn. Glæðir er að langstærstum hluta að fara til heimila sem nota áburðinn á stofublóm. Guðjón vill meina að blómaáburðurinn henti sérstaklega vel til notkunar í vökvunarkerfi í gróðurhúsum og á golfvöllum. Erfiðlega hafi gengið að markaðssetja vöruna fyrir stórnotendur. Guðjón segir að Glæðir sé ríkur af snefilefnum, svo sem steinefnum. Hann sé góður í að styrkja plöntur og henti vel á snöggan gróður svo sem á golfvöllum og í gróðurhúsum. Stóru áburðarefnin, köfnunarefni, fosfór og kalí þurfi þar sem sprettan eigi að vera mikil.
Sjá nánar spjall við Guðjón í Skessuhorni vikunnar.