11. desember. 2013 11:01
Síminn leitar nú að endursöluaðila í Grundarfirði þar sem Hrannarbúðinni hefur verið lokað eftir 45 ára verslunarrekstur. Verslunina ráku hjónin Gunnar Kristjánsson og Jóhanna H. Halldórsdóttir og höfðu gert um áratugi. Sigurður Svansson, viðskiptastjóri endursölusamstarfs hjá Símanum, segir unnið að því að finna nýjan endursöluaðila Símans í bænum. „Þetta er stór staður og miðsvæðis á Snæfellsnesi og því finnst okkur mikilvægt að halda þjónustunni í Grundarfirði,“ segir Sigurður. Þar til samið hefur verið við nýjan þjónustuaðila bendir hann á þjónustu Símans bæði í Ólafsvík og Stykkishólmi, hjá VÍS í Ólafsvík og Bókaverzlun Breiðafjarðar í Stykkishólmi. Samhliða því að auglýsa eftir endursöluaðilum fyrir Síminn vill fyrirtækið þakka þeim Jóhönnu og Gunnari fyrir gott og farsælt samstarf í gegnum árin.