13. desember. 2013 05:10
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur að höfðu samráði við ríkisstjórnina ákveðið að heimila hvalveiðar fram til 2018. Heimildin miðast við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hverju sinni næstu fimm árin. Samkvæmt ráðgjöf Hafró fyrir næsta ár verður leyfilegt að veiða 229 hrefnur á landgrunnssvæði og 154 langreyðar. Ákvörðunin er í samræmi við stefnu stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins og með hliðsjón af ályktun Alþingis um hvalveiðar frá 10. mars 1999.
Innan við 1% af stofnstærð
Samkvæmt niðurstöðum nýlegra hvalatalninga þá eru um 20.000 langreyðar og að minnsta kosti 30.000 hrefnur að finna á stofnsvæðunum við Íslandsstrendur. Ráðgjöf Hafró er minna en 1% af stofnstærð beggja tegunda, og vel innan þeirra marka sem almennt er miðað við að tryggi sjálfbærar veiðar úr hvalastofnum. Báðar hvalategundirnar sem Íslendingar nýta eru ekki á válista Alþjóðlegu náttúruverndar-samtakanna (IUCN).