19. desember. 2013 01:01
Helgi Kristjánsson frá Ólafsvík rekur litla fiskverkun í Hafnarfirði ásamt bróður sínum. Þeir eru í harkinu. Kaupa fisk á mörkuðum og verka fyrir svipula markaði erlendis. Síðan er hann mikill áhugamaður um knattspyrnu og heldur þá að sjálfsögðu með liði úr heimabænum. Það er Víkingur Ólafsvík.
Helgi fylgist með því af lífi og sál. Hann skráir söguna í fortíð og nútíð og birtir á vinsælli bloggsíðu sem hann heldur úti á netinu. Síðustu misserin hefur áhuginn á sögunni og varðveislu hennar komið fram á fleiri sviðum. Helgi heldur utan um safn gamalla ljósmynda frá Ólafsvík, Hellissandi og Rifi sem hann sýnir á fésbókarsíðu sinni á netinu. Fólk skrifar upplýsingar við þær og sendir honum gamlar myndir úr fórum sínum. Safnið stækkar ört.
Ítarlegt viðtal er við Helga í jólablaði Skessuhorns þar sem birtar eru margar gamlar myndir úr fórum hans og annarra frá Ólafsvík, Hellissandi og Rifi.
Þeir sem vilja og hafa áhuga á að senda Helga myndir til birtingar geta sent þær á póstfangið helgibjargar@gmail.com. Ef fólk er í vandræðum með að skrifa (skanna) þær inná á tölvuna sína, þá er alltaf hægt að koma myndunum eða myndaalbúmunum til Helga og hann skannar þær inn og skilar síðan myndunum til viðkomandi.