20. desember. 2013 10:01
Háskólinn á Bifröst byrjaði í haust að bjóða nemendum upp á námskeið í gerð rekstraráætlana í samstarfi við fyrirtæki á Vesturlandi. Samstarfið felur í sér að fyrirtækin veita aðgang að rekstrarupplýsingum í ársreikningi og nemendur vinna áætlanir út frá þeim upplýsingum. Nemendur eru því að vinna að áætlunum sem á að nota í raunverulegum fyrirtækjum en ekki tilbúnum eins og oftast er gert í námi. 27 fyrirtæki víðsvegar af Vesturlandi hafa komið til samstarfs og hjálpa þannig til við að búa til kunnáttu hjá nemendum. Háskólinn á Bifröst tengist með þessu verkefni atvinnulífinu í nærumhverfi sínu sterkari böndum og bæði nemendur og fyrirtæki njóta góðs af því, segir á vef háskólans. Vilhjálmur Egilsson rektor hélt á liðnu hausti fundi í samstarfi við Arion banka og Landsbankann víðsvegar um Vesturland til að kynna fyrirtækjum verkefnið. Voru viðtökur fyrirtækja góðar eins og það sýnir að 27 fyrirtæki eru nú komin til samstarfs við Háskólann á Bifröst.