20. desember. 2013 01:01
Búið er að draga og raða niður leikjum í Lengjubikarnum, sem er deildarbikarkeppni KSÍ. Þrjú lið af Vesturlandi taka þátt í efri deildum keppninnar. Það eru karla- og kvennalið ÍA og karlalið Víkings Ólafsvík. Mótið hefst hjá körlunum laugardaginn 15. febrúar og þá fá Skagamenn BÍ/Bolungarvík í heimsókn í Akraneshöllina. Einnig leika í sama riðli í A-deildinni, KR, Breiðablik, Fram, Grindavík, Keflavík og Tindastóll. Sama dag fer fram í Akraneshöllinni leikur Víkings frá Ólafsvík og Selfoss. Með þessum liðum eru einnig í riðlinum, Haukar, KV, Valur, ÍBV, Víkingur R og Stjarnan. Skagakonur hefja keppni í Lengjubikarnum föstudaginn 14. mars, fá þá FH í heimsókn í Akraneshöllina. Auk þessara tveggja liða eru í riðlinum: Afturelding, Fylkir, HK/Víkingur og Þróttur frá Reykjavík.