21. desember. 2013 09:01
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Dalabyggðar fyrir næsta ár og næstu þrjú ár var samþykkt við seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar þriðjudaginn 17. desember sl. Þar er gert er ráð fyrir að rekstarniðurstaða Dalabyggðar verði lítillega jákvæð á hverju ári á áætlunartímabilinu. Skuldahlutfall verði áfram um 70%, það er að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum, og að fjárhagsleg viðmið sem sett eru fram í sveitarstjórnarlögum séu þannig uppfyllt. Til að þetta sé mögulegt þarf að sýna töluvert aðhald í rekstri sveitarfélagsins, segir í bókun frá fundinum.
Á árinu 2014 er gert ráð fyrir að heildartekjur A- og B-hluta sveitarsjóðs Dalabyggðar verði um 664 millj. kr. en heildargjöld án fjármagnsliða um 643 millj. kr. Fjármagnsliðir verða neikvæðir um 20 milljónir króna og rekstrarniðurstaða samstæðu jákvæð um rúma eina milljón króna. Áætlað er að rekstarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um 2,6 millj. kr.
Fjárfest verður samkvæmt áætluninni fyrir 38 milljónir og ný lántaka verður allt að 35 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði komið upp aðstöðuhúsi á íþróttavelli í Búðardal, urðunarstað í landi Höskuldsstaða, endurnýja aðstöðuhús á tjaldsvæði í Búðardal, ljúka endurbótum utanhúss á Dalabúð og stjórnsýsluhúsi og byrja á fráveitukerfi í hesthúsahverfi. Gert er ráð fyrir að leik- og tónlistarskólagjöld og mötuneytisgjöld hækki um 2,5% en aðrar gjaldskrár hækki almennt um 4,2%. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að framlegðarhlutfall verði um 7% og handbært fé í árslok 2014 verði um 30 milljónir króna.