20. desember. 2013 10:05
Þórhallur Bjarnason garðyrkjubóndi á Laugalandi í Stafholtstungum varð fyrir óvenjulegri lífsreynslu í morgun þegar hann mætti til vinnu á garðyrkjustöðinni. Álft hafði þá komist inn í gróðurhúsin hjá honum og var þar í sjálfheldu. "Þegar ég fór fyrstu yfirferð yfir húsin í morgun sá ég allt í einu út undan mér hvar fugl var inni í einu gróðurhúsanna. Mér datt reyndar fyrst í hug að einhver væri að stríða mér," sagði Þórhallur í samtali við Skessuhorn. Þegar hann fór að skoða þetta betur kom í ljós að álft hafði tyllt sér á rúður á þaki gróðurhússins einhvern tímann í nótt og rúður brotnað undan þunga fuglsins. "Það voru þrjár rúður brotnar þar sem hún hefur farið inn, að öðru leyti hafði hún ekki skemmt neitt," sagði Þórhallur. Gróðurhúsið sem um ræddi var fullt af litlum agúrkuplöntum og hafði Þórhallur áhyggjur af að álftin myndi valda tjóni ef styggð kæmi að henni. "Í fyrstu vissu ég ekki hvernig ég ætti að koma fuglinum út. Ég opnaði þó hurð á stafni hússins og tókst að komast í rólegheitunum innfyrir fuglinn og stugga honum út. Álftin var það skynsöm að hún þáði fljótlega boðið og vappaði út," sagði Þórhallur. Álftirnar voru tvær á ferðinni og beið makinn uppi á þaki gróðurhússins meðan á þessu gekk. Álftaparið var frelsinu fegið og flaug á brott þegar gróðurhúsaálftin losnaði úr prísundinni. Aðspurður segir Þórhallur aldrei hafa heyrt um það áður að álft færi inn í gróðurhús. "Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Þetta eru svo stórir fuglar að hún hefði getað valdið töluverðu tjóni ef styggð hefði komist að henni. Sem betur fer var hún hin spakasta," sagði Þórhallur.