22. desember. 2013 08:00
Nafn Sveins Þórs Elinbergssonar bar fljótlega á góma þegar svipast var um eftir álitlegu viðtalsefni í jólablað Skessuhorns. Sveinn hefur starfað lengi að skólamálum eða í 27 ár, lengst af í Ólafsvík og Snæfellsbæ. Í dag er Sveinn Þór forstöðumaður Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.
Þegar blaðamaður Skessuhorns brá sér til Hellissands á dögunum, bjóst hann við að hitta fyrir frekar alvörugefinn skólamann en svo var alls ekki. Strax við spjallið yfir kaffibollanum í morgunsárið kom Sveinn blaðamanni fyrir sjónir sem glaðvær poppari frá blómatíma bítlatímans á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar. Sveinn segir nefnilega að sitt aðaláhugamál um tíðina hafi verið þessi tegund tónlistar og hljómsveitarbransinn. Hann hefur reyndar sinnt honum í minna mæli seinni árin en hann gjarnan hefði kosið.
„Þegar ég minnist jólanna unglingsárin og fram á fullorðinsár, tengjast þær minningar gjarnan spilamennsku á böllum annan í jólum og um áramót. Svo þegar fjölskyldulífið byrjaði þá dró maður sig smátt og smátt út úr þessum bransa að miklu leyti,“ segir Sveinn. Þegar hann er svo spurður um fleira jólalegt má segja að það sé eitt og annað sem hann hefur frá að segja. „Á mínu heimili hefur verið tekið ástfóstri við bókina „Jólin koma“ með vísum Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana og fleira jólalegt. Þessi bók og teikningar af gömlu jólasveinunum hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá minni fjölskyldu. Ég hef lesið þessar vísur fyrir börnin mín og flest barnabörnin eða leyft þeim að lesa fyrir mig. Það er ekkert betra fyrir börn en að lesa sig í svefn, ekki síst fyrir jólin,“ segir Sveinn.
Spjallað er við skólamanninn og popparann Svein Þór Elinbergsson í Ólafsvík í jólablaði Skessuhorns.